Inngangur
Fátt er mikilvægara í daglegu lífi fyrir unglinga og ungt fólk en að hafa jákvæða sjálfsmynd, gott sjálfstraust og þekkja styrkleika sína. Í nútímasamfélagi, hvort sem er í skóla, á heimili, tómstundum eða á öðrum sviðum í lífi einstaklings er mikið áreiti og pressa á að velja eða haga ákvörðunum sínum á réttan hátt. Það er því ekki að ósekju að börn og unglingar á Íslandi finni fyrir óöryggi, áhyggjum og þreytu. Glíma jafnvel við kvíða, þunglyndi og svefntruflanir, beita eða verða fyrir ofbeldi. Það var því að þeim sökum sem við umsjónarkennarar í 9.bekk árið 2022 fengum áhuga á að búa til námsefni sem mætti auka skilning einstaklingsins á veikleikum sínum og styrkleikum. Læra að þekkja sjálfan sig, mátt sinn og megin til að verða besta útgáfan af sjálfum sér.
Með því að byggja upp sjálfstraust og jákvæða sjálfsmynd í gegnum skemmtilegt námsefni töldum við okkur sem kennara getað stigið skref í rétta átt.
Kveikjan að þessu verkefni var veturinn 2021-2022 en þá tókum við þátt í verkefninu Lærðu að elska þig undir stjórn Guðbjargar Óskar Friðriksdóttur. Þar unnum við með flesta þá þætti sem við ákváðum svo að leggja áherslu á í okkar verkefni.
Hugmynd Guðbjargar Óskar, sem er höfundur námskeiðsins Lærðu að elska þig hefur byggt upp öflugt nám í persónulegri uppbyggingu fyrir einstaklinga sem vilja byggja upp og hlúa að styrkleikum sínum til að eiga kost á innihaldsríkara og betra lífi
Við unnum verkefnið í samvinnu við Guðbjörgu Ósk þar sem við nýttum okkur kennsluefni frá henni, sem var blanda af fróðleik, æfingum og verkefnum. Þetta eru m.a. aðferðir sem stuðla að jákvæðara hugarfari, betra sjálfsmati, sjálfsöryggi, aukinni meðvitund og hugrekki. Nemendur átta sig þannig betur á eiginleikum sínum og hæfileikum, verða sterkari í að standa með sjálfum sér, ná betri tengingu við sig og læra að nýta innsæi sitt.
Grunnskóli Vestmannaeyja hefur undanfarin ár tekið þátt í verkefninu Kveikjum neistann sem byggir á stórum hluta á gróskuhugarfari og höfðum við það einnig til hliðsjónar i þessu verkefni. Þannig má segja að verkefni okkar byggi að mestu leyti á jákvæðri sálfræði og notkun gróskuhugarfars svo að hver einstaklingur megi vaxa og dafna með styrkleika sína að leiðarljósi, jákvæða og gagnrýna hugsun.
Gróskuhugarfar (e. growth mindset) byggir á því að hver einstaklingur geti, með leiðsögn, þroskað hæfileika sína og færni með því að leggja sig fram.
Bandaríski sálfræðingurinn Carol Dweck, prófessor, kom fram í fyrsta sinn með hugtakið gróskuhugarfar í bók sinni Mindset: The New Psychology of Success, árið 2006. Þar er byggt á rannsóknum hennar um hvernig undirliggjandi trú einstaklings á vitsmuni sína og námshæfni geti haft áhrif á frammistöðu hans.
Rannsóknir hennar sýna að þeir sem þroska hæfileika sína ná oft meiri árangri en þeir sem telja sig hafa meðfædda hæfileika og fastmótaða. Þeir sem hafa trú á sjálfum sér þróa með sér vaxtarhugarfar, sjá tækifæri í stað hindrana og ákveða að ögra sjálfum sér til að læra meira í stað þess að halda sig innan þægindarammans.
Eins og prófessor Dweck útskýrir: „ Gróskuhugarfar byggir á þeirri trú að grunneiginleikar þínir séu það sem þú getur ræktað með sjálfum þér. Þó að fólk sé ólíkt á allan hátt, með hæfileika sína og hæfni, áhugamál eða skapgerð í upphafi, geta allir breytt og vaxið með því að beita sér og reynslu sinni. ”
Það er nokkuð margt sem hefur áhrif á sjálfsmynd og líðan unglinga í nútímasamfélagi. Áhrifin af því geta breytt á ótalmargan hátt lífi ungs fólks svo sem hegðun, þroska, hugrekki til að fylgja eftir draumum og löngunum. Einnig geta til þess að standa með sjálfum sér, öðlast sjálfstæði og heilbrigt líf. Við höfum við hönnun þessa námsefnis haft að leiðarljósi allmargar heimildir um hvernig sé best að byggja upp sjálfsmynd barna, hvað getur menntakerfið notað til að ná til sem flestra barna og unglinga, þá ekki síður hvað er líklegast til að skila langtíma árangri. Við viljum hér nefna nokkrar heimildir sem við höfum stuðst við í vinnslu verkefnisins:
Í Aðalnámskrá Grunnskóla segir um grunnþætti menntunar:
“Ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það.” (AG, 2011 og 2013, grunnþættir menntunar).
Hæfnivimið úr Aðalnámskrá:
Sýnt fram á skilning á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum, félagslegri stöðu, jöfnuði og helgi mannlegs lífs.
Fengist við og greint viðfangsefni sem snerta trú, lífsviðhorf og siðferði og tengjast spurningum um merkingu og tilgang lífsins.
Hugleitt og tjáð hver hann er í augum sjálfs sín og annarra, útskýrt hvernig sjálfsmynd hans mótast af umhverfi og búsetu, stjórnmálum og félagslegum aðstæðum, sögu og menningu, trúar- og lífsviðhorfum.
Gert sér grein fyrir eigin styrkleikum og veikleikum og tekið ákvarðanir á grunni þeirrar sjálfsþekkingar.
Sýnt styrk til að bera ábyrgð á eigin lífi, lífsháttum og heilbrigði.
Rökstutt gildi jákvæðra lífsviðhorfa, dyggða og gildismats sem mikilvægs þáttar í heilbrigðri sjálfsvitund.
Greint jákvæð og neikvæð áreiti og staðist þrýsting, sem stefnir heilsu og velferð fólks í voða.
Lýst margbreytileika tilfinninga og bent á víxlverkun tifinninga, hugsunar, hegðunar og samskipta.
Gert sér grein fyrir jafngildi sínu og annarra manna og útskýrt fyrir öðru fólki mikilvægi þess.
Útskýrt gildi reglna í samskiptum fólks í fjölskyldu, vinahópi og þjóðfélginu í heild og tekið þátt í að móta slíkar reglur.
Sýnt sjálfsaga, sjálfstraust og virðingu í margvíslegum samskiptum og samstarfi við ólíka einstaklinga. (AG 2011 og 2013, samfélagsgreinar).
Á Heilsuveru má finna mjög gagnlegar upplýsingar um ýmislegt sem viðkemur andlegri heilsu unglinga og þar segir m.a. að sjálfsmynd unglinga breytist í takt við aukinn þroska og aðstæður. Það er eðlilegt og æskilegt að unglingar þekki styrkleika sína og veikleika, leiti vaxandi sjálfstæðis og ábyrgð á eigin lífi. Mikilvægt er að gera greinarmun á eðlilegum tilfinningum eins og depurð og pirringi eða alvarlegri merkjum um neikvætt sjálfsálit eða skort á sjálfstrausti.